AUKAVERKANIR

Lyfjagát (e. pharmacovigilance) er mikilvægt kerfi sem ætlað er til að fylgjast með aukaverkunum lyfja og auka þannig öryggi þeirra. Eftirlit og eftirfylgni með aukaverkunum dregur úr áhættu og eykur ávinning af notkun lyfja. Aukaverkun er skilgreind sem skaðleg og ótilætluð/óæskileg verkun lyfs. Upplýsingar um aukaverkanir sem hugsanlegt er að notkun lyfs hafi í för með sér er að finna í lyfjaupplýsingum fyrir lyfið sem finna má á www.serlyfjaskra.is.

Áður en lyf er sett á markað hefur það aðeins verið prófað hjá afmörkuðum hópi fólks og þar af leiðandi hafa ekki allar aukaverkanir komið í ljós þegar lyfið er markaðssett. Til að tryggja að aðrar og sjaldgæfari aukaverkanir uppgötvist er eftirlit með aukaverkunum mikilvægt. Öflug lyfjagát skilar sér í betri upplýsingum, og stundum frekari leiðbeiningum um notkun viðkomandi lyfs, sem leiðir til minni áhættu og aukins ávinnings af notkun lyfja.

Mikilvægt er að tilkynna allar aukaverkanir. Ekki þarf að vera búið að sanna tengsl á milli lyfs og aukaverkunar áður en tilkynnt er, nægilegt er að grunur leiki á að um aukaverkun sé að ræða.

Ef þú telur þig hafa fengið aukaverkun af lyfi skaltu hafa samband við lækni. Læknirinn metur hvort það sé ástæða til að breyta meðferðinni vegna aukaverkunarinnar. Þú getur einnig tilkynnt aukaverkun til lyfjafræðings í apóteki, í gegnum vefeyðublað á þessari vefsíðu eða til Lyfjastofnunnar, www.lyfjastofnun.is.

Fullum trúnaði er haldið við þann einstakling sem tilkynnir aukaverkun og persónugreinanlegar upplýsingar eru ekki áframsendar.

Hvað skal tilkynna

Allar aukaverkanir skal tilkynna en það er sérstaklega mikilvægt að tilkynna aukaverkanir lyfja sem eru undir sérstöku eftirliti og eru merkt með svörtum þríhyrningi í fylgiseðli til merkis um það. Einnig er mikilvægt að tilkynna alvarlegar aukaverkanir og aukaverkanir sem ekki eru þekktar fyrir lyfið. Alvarleg aukaverkun er aukaverkun eða óæskileg áhrif af völdum lyfs sem leiðir til dauða, lífshættulegs ástands, sjúkrahúsvistar eða lengingar á sjúkrahúsvist, veldur fötlun eða fæðingargalla.

Einnig skal tilkynna ef lyfið verkar ekki sem skyldi, aukaverkanir vegna rangar notkunar, vegna eitrunar, ofskömmtunar eða misnotkunar eða vegna notkunar sem er ekki samkvæmt samþykktri ábendingu fyrir lyfið.

Þegar lyf er notað hjá þunguðum konum eða hjá konum með barn á brjósti er mikilvægt að tilkynna um það. Slíkt er tilkynnt eins og um aukaverkun sé að ræða, jafnvel þó ekki hafi orðið vart við aukaverkun. Það er vegna þess að skortur er á rannsóknum á notkun hjá þunguðum konum og/eða konum með barn á brjósti og því er sérstaklega mikilvægt að fá allar upplýsingar um slíka notkun.